Hlutfall þeirra sem ætla að keyra á nagladekkjum í vetur er um 46%, samkvæmt könnun sem unnin var fyrir Framkvæmdasvið Reykjavíkurborgar í haust. Þetta er í fyrsta sinn sem hlutfall nagladekkja mælist undir 50 % í Reykjavík, en til samanburðar óku 52 af hundraði á nagladekkjum veturinn 2005-6, samkvæmt viðhorfskönnun sem gerð var vorið 2006.
Spurt var hversu líklegt eða ólíklegt fólk teldi að sá heimilisbíll sem það keyrir oftast muni verða á nagladekkjum í vetur. 46,4% aðspurðra segja mjög eða fremur líklegt að sá heimilisbíll sem þeir keyra oftast verði á nagladekkjum í vetur, en 52,2% segja það mjög eða fremur ólíklegt.
Beitt var tilviljunarúrtaki þar sem þátttakendur búsettir á höfuðborgarsvæðinu voru valdir af handahófi úr þjóðskrá. Hringt var dagana 8 sept. til 27. sept 2007. Í úrtakinu voru 1200 manns, en samtals tóku 759 manns þátt í könnuninni.