Forseti gegni embættinu þótt hann sé í útlöndum

Þrír þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram frumvarp um breytingu á ákvæði stjórnarskrárinnar um handhafa forsetavalds. Samkvæmt frumvarpinu munu handhafar forsetavalds ekki fara með það vald þótt forseti Íslands dvelji erlendis.

Ellert B. Schram er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. Í greinargerð segir, að ákvæði stjórnarskrárinnar um að handhafar forsetavalds taki við þegar forseti dvelur erlendis sé komið til ára sinna. Stjórnarskráin tók gildi árið 1944 þegar samgöngur og fjarskipti voru allt önnur og minni en nú þekkist. Hver sem er, forsetinn sem aðrir, geti skroppið til útlanda að morgni og komið heim að kvöldi og forseti Íslands hafi öll tök á því að fylgjast með og sinna skyldum sínum, enda þótt hann fari utan í nokkra daga.

Þá segir í greinargerðinni, að það fyrirkomulag að þrír aðrir einstaklingar gegni starfi forseta Íslands þótt hann bregði sér „á milli bæja“ sé óþarfi og raunar einsdæmi.

Einnig hafi þetta tilstand verulegan kostnað í för með sér. Þeir valdsmenn, sem taka við forsetaembættinu í hvert skipti sem forseti Íslands hverfur úr landi, fái greidd laun fyrir ómakið og upplýst hafi verið í fjölmiðlum að sá kostnaður nemi milljónum króna. Það sé óþægileg umræða og ástæðulaus útgjöld, sem hægt sé að spara með þessari breytingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert