Hljómtæki kunna að hafa valdið mæliskekkju

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is

Héraðsdómur Reykjaness hefur sýknað karlmann af ákæru fyrir að hafa ekið á 163 km hraða á Reykjanesbraut á Strandaheiði þar sem hámarkshraði er 90 km. Taldi dómurinn að lögreglumenn hefðu ekki farið eftir verklagsreglum við hraðamælingu og ekki prófað ratsjá í lögreglubílnum áður en mælingin var gerð.

Maðurinn, sem ákærður var, sagðist ekki hafa ekið yfir 90 km hraða. Tók hann fram, að í bíl hans væri mjög sterkt hljóðkerfi, sem sendi út mikla hátíðni. Lét hann að því liggja að hátíðnin í hljóðkerfinu hafi truflað ratsjá lögreglubifreiðarinnar.

Þá sagði ökumaðurinn einnig, að loftflæmiskynjari hafi verið bilaður og útilokað að bíllinn hefði náð svona miklum hraða.

Í dómnum var lagt fram álit sérfræðings í mælibúnaði þar sem kom fram, að þegar tónlist sé spiluð af afli leiki yfirbygging bíla á reiðiskjálfi. Titringurinn í yfirbyggingu og rúðum bíls, sem stafi frá aflmiklum hljómtækjum, geti hæglega valdið skekkju í hraðamælingu með ratsjá.

Þá taldi sérfræðingurinn einnig, að tvö mælimöstur Vegagerðarinnar, sem eru þarna við Reykjanesbrautina gætu valdið mæliskekkju við ratsjármælingar.

Dómurinn taldi að ekki hefði verið nægilega leitt í ljós að farið hafi verið eftir verklagsreglum um prófun ratsjárinnar. Þá þóttu mælingar lögreglumannanna ekki útiloka niðurstöður mælingasérfræðingsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert