Kaupás mótmælir ásökunum um samráð og blekkingar

Úr einni af verslunum Krónunnar.
Úr einni af verslunum Krónunnar. mbl.is/Ásdís

Kaupás, sem rekur m.a. verslunarkeðjuna Krónuna, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem mótmælt er harðlega ásökunum um ólöglegt samráð í verðlagningu og einnig því að óeðlileg vinnubrögð séu stunduð í tengslum við verðkannanir.

Skorar Kaupás á þar til bæra opinbera aðila, að kanna tafarlaust og með öllum tiltækum ráðum sannleiksgildi þeirra nafnlausu og órökstuddu ásakana, sem komið hafi verið á framfæri við fjölmiðla á undanförnum dögum. Jafnframt segist fyrirtækið vona, að Samkeppniseftirlitið hraði eins og frekast sé unnt þeirri athugun sem þegar sé hafin á stöðu matvælamarkaðarins.

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

    Í ljósi ásakana og umræðu í fjölmiðlum síðustu daga um verðkannanir og meint samráð verslana á matvælamarkaði vill Kaupás hf,. sem rekur m.a Krónuna, koma eftirgreindu á framfæri:

    Ásakanir um ólöglegt samráð í verðlagningu eru litnar mjög alvarlegum augum enda er þar vegið að orðspori og óendanlega mikilvægu trúnaðartrausti verslunarinnar og viðskiptavina hennar. Kaupás mótmælir þessum ásökunum harðlega og skorar á þar til bæra opinbera aðila að kanna tafarlaust og með öllum tiltækum ráðum sannleiksgildi þeirra nafnlausu og órökstuddu ásakana sem komið hefur verið á framfæri við fjölmiðla á undanförnum dögum. Jafnframt er látin í ljós von um að Samkeppniseftirlitið hraði eins og frekast er unnt þeirri athugun sem þegar er hafin á stöðu matvælamarkaðarins.

    Kaupás mótmælir því einnig að óeðlileg vinnubrögð séu stunduð í tengslum við verðkannanir. Félaginu er það mikið kappsmál að vandaðar verðkannanir gefi neytendum glögga mynd af því hverjir bjóða best í þeirri miklu samkeppni sem ríkir á íslenskum matvælamarkaði. Ef slíkri könnun er ætlað að sýna hvar lægsta verð sé að finna skiptir auðvitað miklu máli fyrir lágvöruverðsverslanir í harðri verðsamkeppni að ódýrustu vörurnar sem á boðstólum eru í hverri verslun séu valdar. Kaupás fagnar öllum vel unnum verðkönnunum og lítur á þær sem dýrmætt vopn í því verkefni sínu að veita markaðsráðandi aðila nauðsynlegt aðhald í verðlagningu og þjónustu. Í þeim efnum er þáttur Krónunnar sérstaklega mikilvægur og trúverðugleika verslunarinnar yrði aldrei fórnað með vinnubrögðum af því tagi sem dylgjað er um.

    Mikill fjöldi verðbreytinga á degi hverjum er til marks um virka samkeppni en ekki samráð. Það er sérstakt keppikefli Krónunnar að sameina lægsta mögulega verð annars vegar og fjölbreytni í vöruvali og gæðum hins vegar. Til þess að standa við markmiðin hvað verðlagningu snertir eru verð keppinauta skoðuð á hverjum degi og einskis látið ófreistað til þess að bjóða ávallt betur. Þannig er í senn staðinn vörður um trausta ímynd verslunarinnar og brýnan hag neytenda.

Undir yfirlýsinguna skrifar Eysteinn Helgason, framkvæmdastjóri Kaupáss.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert