Sagt er að bíllinn sé úlpa Íslendingsins. Ef litið er á fjölda þeirra á götunum lætur nærri að þeir séu ekki mikið færri en úlpurnar því í lok árs 2006 voru 272.905 ökutæki á Íslandi. Þar af voru fólksbílar rétt tæplega 200 þúsund.
Samkvæmt þeim tölum má sjá að tveir þriðju hlutar Íslendinga eiga sinn eigin bíl, að börnum meðtöldum.
Það er ljóst að í samgöngunum liggur stærsta sóknarfæri okkar til að vinna gegn loftslagsbreytingum.
Alls ber bílaflotinn ábyrgð á 19 prósent af losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.
Öll losun einstaklinga vegna húshitunar, vatnsnotkunar, sorps eða lifnaðarhátta þeirra annarra er ekki nema brot af því sem bíllinn hefur á samviskunni.
Um þetta er fjallað í fjórða hluta Út í loftið, umfjöllunar um loftslagsmál sem birtist í Morgunblaðinu næstkomandi sunnudag.
Þar verður fylgst með því þegar hjónin Ísafold og Loftur funda um verkefnið "vistvernd í verki" þar sem rætt er um samgöngumál.
Skyldi vera raunhæft fyrir fjölskyldur landsins að fækka heimilisbílunum um einn, fara að nota strætó meira eða samnýta ferðir til og frá vinnu?
Það hitnar svo sannarlega í kolunum þegar fundargestir þurfa að takast á við spurningar sem þessar.