Þrír félagar í samtökum Vítisengla voru stöðvaðir við komuna til Keflavíkurflugvallar í dag en þeir komu frá Ósló ásamt eiginkonum sínum. Fram kom í fréttum Útvarpsins að von væri á sjö til viðbótar með síðara flugi þaðan og verður fólkið allt sent til baka.
Mikill viðbúnaður lögreglu hefur verið í Leifsstöð í dag vegna þess að von var á norrænum félögum í Vítisenglum til landsins. Lögreglan á Suðurnesjum, ásamt lögreglu höfuðborgarsvæðisins og sérsveit ríkislögreglustjóra, gerðu í gær húsleit í húsakynnum vélhjólaklúbbsins Fafner MC-Iceland en greiningardeild ríkislögreglustjóra bárust fyrir skömmu upplýsingar frá erlendum samstarfsaðilum um að til landsins væri stefnt fjölda Vítisengla vegna afmælisveislu sem vélhjólaklúbburinn ætlar að halda um þessa helgi.
Dóms- og kirkjumálaráðherra ákvað í gær, að tillögu ríkislögreglustjóra, að taka upp tímabundið landamæraeftirlit á innri landamærum Schengen svæðisins þar sem koma Vítisengla var talin geta ógnað allsherjarreglu og þjóðaröryggi.
Tilraunir Vítisengla til að ná fótfestu á Íslandi má rekja ein fimm ár aftur í tímann, hið minnsta og hafa viðbrögð lögreglu jafnan verið á sama veg.
Í upphafi árs 2002 voru danskir félagar í samtökum þessum stöðvaðir við komu til landsins og þeim meinuð landganga. Þeir höfðu m.a. hlotið dóma fyrir morð, manndrápstilraunir, fíkniefnasmygl og ofbeldisbrot. Sama ár barst starfsfólki í sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn hótun frá Hell’s Angels-samtökunum í Danmörku.
Í júlí 2002 var félögum í norskum samtökum, sem tengdust Hell’s Angels, meinuð landganga. Fimm norskum félögum í Hell’s Angels var vísað úr landi í desember 2003. Árið 2004 var dönskum félögum í vélhjólasamtökunum Hog Riders vísað úr landi við komu til Keflavíkur.