Vítisenglum snúið við

Lögreglan gerði húsleit í félagsheimili Fáfnis í Reykjavík í gær …
Lögreglan gerði húsleit í félagsheimili Fáfnis í Reykjavík í gær í tengslum við væntanlega komu Vítisengla til landsins. mbl.is/Júlíus

Þrír fé­lag­ar í sam­tök­um Vít­isengla voru stöðvaðir við kom­una til Kefla­vík­ur­flug­vall­ar í dag en þeir komu frá Ósló ásamt eig­in­kon­um sín­um. Fram kom í frétt­um Útvarps­ins að von væri á sjö til viðbót­ar með síðara flugi þaðan og verður fólkið allt sent til baka.

Mik­ill viðbúnaður lög­reglu hef­ur verið í Leifs­stöð í dag vegna þess að von var á nor­ræn­um fé­lög­um í Vít­isengl­um til lands­ins. Lög­regl­an á Suður­nesj­um, ásamt lög­reglu höfuðborg­ar­svæðis­ins og sér­sveit rík­is­lög­reglu­stjóra, gerðu í gær hús­leit í húsa­kynn­um vél­hjóla­klúbbs­ins Fafner MC-Ice­land en grein­ing­ar­deild rík­is­lög­reglu­stjóra bár­ust fyr­ir skömmu upp­lýs­ing­ar frá er­lend­um sam­starfsaðilum um að til lands­ins væri stefnt fjölda Vít­isengla vegna af­mæl­is­veislu sem vél­hjóla­klúbbur­inn ætl­ar að halda um þessa helgi.

Dóms- og kirkju­málaráðherra ákvað í gær, að til­lögu rík­is­lög­reglu­stjóra, að taka upp tíma­bundið landa­mæra­eft­ir­lit á innri landa­mær­um Schengen svæðis­ins þar sem koma Vít­isengla var tal­in geta ógnað alls­herj­ar­reglu og þjóðarör­yggi.

Til­raun­ir Vít­isengla til að ná fót­festu á Íslandi má rekja ein fimm ár aft­ur í tím­ann, hið minnsta og hafa viðbrögð lög­reglu jafn­an verið á sama veg.

Í upp­hafi árs 2002 voru dansk­ir fé­lag­ar í sam­tök­um þess­um stöðvaðir við komu til lands­ins og þeim meinuð land­ganga. Þeir höfðu m.a. hlotið dóma fyr­ir morð, mann­dráp­stilraun­ir, fíkni­efna­smygl og of­beld­is­brot. Sama ár barst starfs­fólki í sendi­ráði Íslands í Kaup­manna­höfn hót­un frá Hell’s Ang­els-sam­tök­un­um í Dan­mörku.

Í júlí 2002 var fé­lög­um í norsk­um sam­tök­um, sem tengd­ust Hell’s Ang­els, meinuð land­ganga. Fimm norsk­um fé­lög­um í Hell’s Ang­els var vísað úr landi í des­em­ber 2003. Árið 2004 var dönsk­um fé­lög­um í vél­hjóla­sam­tök­un­um Hog Ri­ders vísað úr landi við komu til Kefla­vík­ur.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert