Óvirkir alkar fá ekki tryggingar

Fyrir kemur að umsókn um líftryggingu er hafnað á þeim forsendum að umsækjandi hafi leitað sér hjálpar vegna áfengisdrykkju, og óvirkir alkóhólistar þurfa oft að greiða hærra líftryggingargjald en aðrir. Þetta segir Ari Matthíasson, framkvæmdastjóri SÁÁ.

„Þetta er mjög sérkennilegur hugsunarháttur. Ef þú ert alkóhólisti sem hefur farið í meðferð, þá borgarðu hærra gjald og átt erfiðara með að kaupa líftryggingu en alkóhólisti sem enn drekkur," segir Ari, og bætir því við að mjög erfitt sé fyrir tryggingafélög að fylgjast með því hvort menn séu í raun óvirkir alkóhólistar eða ekki. Því komi þetta helst niður á þeim sem heiðarlegastir eru er þeir fylla út umsóknirnar.

Að sögn Vigfúsar M. Vigfússonar, deildarstjóra líf- og heilsutrygginga hjá Tryggingamiðstöðinni, er reglan þar á bæ sú að líða þurfi þrjú ár frá því að alkóhólisti fer í meðferð þar til hann getur sótt um líftryggingu. „Enda gildir með alkóhólisma eins og aðra sjúkdóma, að líkurnar á því að veikindin taki sig upp minnka eftir því sem lengra líður frá vel heppnaðri meðferð." Hann segir að um flesta sjúkdóma gildi að upplýsingar frá umsækjanda líftryggingar séu látnar nægja. Hins vegar sé óskað eftir læknisskoðun þegar um alkóhólisma er að ræða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka