Íþrótta- og tómstundaráð (ÍTR) leggst gegn því að samþykkt verði umsókn Knattspyrnufélagsins Vals um að heimiluð verði áfengissala í hátíðarsal félagsins til klukkan 23.00 virka daga og til klukkan 01.00 aðfaranætur laugardaga, sunnudaga og almennra frídaga. ÍTR tók umsóknina fyrir á fundi í gær, en ráðinu er ætlað að gefa umsagnir um umsóknir sem þessar, þar sem um er að ræða íþróttamannvirki. Í umsögn ÍTR er vísað í 10 gr. málsmeðferðarreglna borgarráðs um veitingastaði og gististaði frá 12. júlí 2007, þar sem m.a. segir: „Ekki eru heimilaðar áfengisveitingar á veitingastöðum í húsum þar sem fram fara skipulegar og reglubundnar íþróttaæfingar barna og unglinga."
ÍTR vísar þar með umsögninni til borgarráðs, sem skilar lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu endanlega umsögn um málið. „ÍTR er með mjög skýrar reglur um þessa hluti og við vísum í það," segir Björn Ingi Hrafnsson, formaður ÍTR. Björn Ingi segir málinu þó ekki vera lokið með þessu. Ekki er útilokað að unnið verði meira með umsögnina hjá skrifstofu borgarstjórnar. Ekki víst að Valsmenn séu í raun að óska eftir leyfi til áfengissölu alla daga, þótt umsóknin sé orðuð þannig."