Samkvæmt heimildum mbl.is hefur Vítisenglunum átta, sem var neitað um landgöngu við komuna til landsins í gær, verið flogið aftur heim til Danmerkur og Noregs í fylgd lögreglumanna. Fólkið dvaldi á sérstökum svæðum sem höfðu verið útbúin í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í nótt. Vítisenglarnir hugðust sækja veislu, sem vélhjólaklúbburinn Fáfnir hafði boðað til í miðborg Reykjavíkur í kvöld.
Fram kom í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra í gær að fylgst verði með komuflugi til landsins um helgina sem og fyrirhuguðu samkvæmi Fáfnis. Embætti ríkislögreglustjóra hefur yfirstjórn aðgerðarinnar. Framkvæmd aðgerðarinnar til þessa hefur verið í höndum lögreglunnar á Suðurnesjum auk þess sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og starfsmenn frá embætti ríkislögreglustjórans taka einnig þátt í henni.
Lögreglan segir að koma félaga í Vítisenglum til Íslands og viðleitni samtakanna til að ná fótfestu hér á landi feli í sér alvarlega ógn við samfélag og allsherjarreglu.