„Fjárfestingar á sviði jarðorku geta numið þúsundum milljarða"

mbl.is/G.Rúnar

Einar Karl Haraldsson, aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar iðnaðarráðherra, sagði á flokksráðsfundi Samfylkingarinnar í dag að útrás íslenskra orkufyrirtækja sé nú komin á flugskrið og að hann telji litlar líkur á að atburðir og deilur síðustu vikna breyti því. Það kunni að koma aðrir leikendur til skjalanna, en útrásin mun halda áfram. Einar flutti ræðuna fyrir hönd Össurar sem komst ekki á fundinn vegna veikinda.

Sagði hann að haldi útrásin áfram með núverandi skriði sé líklegt að á næstu 2-3 árum muni íslensku útrásarfyrirtækin halda áfram að kaupa sig inn í, eða yfirtaka starfandi orkufyrirtæki og verða sér úti um ný svæði, sem enn eru ónýtt víða um heim.

Íslenskar fjárfestingar á sviði jarðorku gætu því á næstu 2-3 árum orðið 50 – 100 milljarðar á ári, en síðar 2-300 milljarða á ári samkvæmt áætlunum þeirra sem stýri útrásinni. Miðað við þann mikla áhuga sem sé jarðhita á alþjóðavettvangi að virkja jarðhita, og þær undirtektir sem íslensku útrásarfyrirtækin hafi fengið í stóru jarðhitalöndunum, einsog Indónesíu, Filippseyjum og Bandaríkjunum, sé ekki ólíklegt að innan 10 ára gætu fjárfestingar íslenskra útrásarfyrirtækja á sviði jarðorku numið yfir 2 þúsundum milljarða íslenskra króna og í hreinni íslenskri eign yrðu þá 10-15 þúsund MW.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert