„Heilbrigðiskerfið þarf að auka sjálfstæði notenda þess með því að treysta á ábyrgð þeirra fyrir eigin heilsu. Slíkt traust endurspeglar sanna þjónustu og virðingu fyrir fólki, auk þess sem slíkt traust færir notendum vald sem virkar batahvetjandi." Þetta sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, í ræðu sem hann flutti á ráðstefnu Samtakanna 78 um lýðheilsu í gær.
Ráðherra sagðist líta á forvarnir og heilsueflingu sem tvær hliðar á sama peningi. Sagðist hann kjósa að nota hugtakið heilsuefling yfir hvort tveggja þar sem það væri jákvæðara og endurspeglaði betur þá vinnu í stefnumótun í heilsueflingu sem hann hefði hrundið af stað í heilbrigðisráðuneytinu, en þá vinnu leiða Inga Dóra Sigfúsdóttir og Héðinn Unnsteinsson. "Færa þarf áhersluna í auknum mæli yfir á umræðu um heilbrigði og þá þætti sem stuðla að því, í stað þess að horfa fyrst til afleiðinga vanheilsu," sagði Guðlaugur Þór meðal annars.