Mikill erill var hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins í nótt og eru fangageymslur fullar eftir nóttina, en alls gista 17 manns á bak við lás og slá bæði í Reykjavík og Hafnarfirði. Mikið var um ölvun og þá bar nokkuð á hópslagsmálum og var lögreglumaður sleginn í andlitið þegar hann reyndi að skakka leikinn í Hafnarfirði í nótt.
Að sögn varðstjóra voru fjórir handteknir eftir hópslagsmál sem brutust út á Hlemmi um miðnætti. Enginn er sagður vera alvarlega slasaður eftir átökin. Þá brutust hópslagsmál einnig út á skemmtistað í Hafnarfirðir um 3:30 í nótt og þar var lögreglumaður sleginn í andlitið er hann hugðist skakka leikinn. Lögreglumaðurinn hlaut minniháttar áverka á kjálka. Tveir voru handteknir í kjölfar slagsmálanna.
Þá voru 12 brot gegn lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar í nótt vegna háttsemisbrota. Lögregla segir að í flestum tilvikum hafi verið að ræða fólk sem hafi misst stjórn á skapi sínu og látið öllum illum látum.
Þá þurfti lögreglan að hafa afskipti af tveimur unglingspiltum í nótt en grunur leikur á að þeir hafi verið að selja jafnöldrum sínum áfengi úr bíl í Seláshverfi í Árbæ. Haft var samband við foreldra piltanna, sem eru 16 og 17 ára gamlir.