„Núverandi löggjöf í orkumálum allsendis óviðunandi"

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra.
Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra. mbl.is/Frikki

Einar Karl Haraldsson, aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar iðnaðarráðherra sagði á flokksráðsfundi Samfylkingarinnar í dag að veður hafi skyndilega skipast þannig í lofti að Samfylkingin sé í einstakri aðstöðu til þess að láta að sér kveða. Þá sagði hann orkumálin nú vera í brennidepli umræðunnar um umhverfismál, sjálfbæra þróun og gróðurhúsaáhrif og að þau séu hitamál hér á landi vegna þess að þekking okkar á nýtingu vatnsafls og jarðvarma og tengsl við jarðvísindamenn um allan heim gætu orðið forsenda stófelldrar útrásar íslenskra orkufyrirtækja ef rétt er á haldið. Einar flutti ræðuna fyrir hönd Össurar sem komst ekki á fundinn vegna veikinda.

Í ræðunni sagði að atburðarrásin að undanförnu hafi sett í brennidepil þá staðreynd, að núverandi löggjöf í orkumálum er allsendis óviðunandi. Íslenska löggjöfin veitir þjóðinni ekki vernd gegn ásælni einkafyrirtækja í sjálfar orkulindirnar og staðan sé nú þannig, að vilji sveitarfélag selja eign sína í viðkomandi orkufyrirtæki til einkafyrirtækis, þá sé enga vernd að finna gegn því í lögunum.

Það sé hins vegar ekkert áhlaupaverk að búa til raforkumarkað með lögum en að Össur leggi áherslu á að vinna að mótun stefnu, sem tryggi samfélagslega eign á þeim orkulindum sem nú þegar sé í almannaeign, bæði innan ríkis og sveitarfélaga.

Hann telji orku og stóriðjumál vera samtengd og að eins og málum sé nú háttað hafi stjórnvöld engin bein stjórntæki til þess að stýra uppbyggingu stóriðju á landinu, hafa áhrif á staðsetningu hennar eða tímasetningar byggingaráfanga. Þetta telji hann óviðunandi, og þarfnast rækilegrar skoðunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert