Ölvaður maður brást ókvæða við þegar lögreglan á Selfossi neitaði að aka honum til Reykjavíkur í nótt. Eftir að maðurinn hafði kallað lögreglumennina öllum illum nöfnum falla æddi hann út á Suðurlandsveg í svartamyrkri og mátti litlu muna að hann yrði ekinn niður. Maðurinn var því handtekinn og gistir hann nú fangageymslur.
Að sögn lögreglunnar á Selfossi voru lögreglumenn að ræða við ökumann sem þeir höfðu stöðvað í nótt þegar maðurinn kom að þeim og óskaði eftir fari til Reykjavíkur.
Fyrr um kvöldið hafði lögreglan einnig þurft að hafa afskipti af manninum, en kvartað var undan hegðun hans á veitingastað um kl. 21 í gærkvöldi. Þar hafði maðurinn verið með óspektir. Lögreglan var kvödd á staðinn og ók manninum á heimili sitt sem er á Selfossi. Þar lofaði hann að hann myndi verða til friðs.
Sem fyrr segir hitti lögreglan manninn á nýjan leik á Suðurlandsvegi skammt frá Hveragerði um kl. 1:30 í nótt, og hafði maðurinn þá ákveðið að ganga í áttina til Reykjavíkur.