Bjarni Daníelsson, formaður Björgunarsveitarinnar Ingunnar, segir björgunarsveitarmenn hvíldinni fegnir nú þegar hlé verði á rjúpnaveiði eftir helgina. Síðan verði björgunarsveitarmenn að nota vikuna vel í að selja neyðarkallinn til að eiga fyrir næstu hrinu rjúpnaveiðimannaleitardaga.
Um kvöldmatarleitið í gær barst sveitinni beiðni um aðstoð þar sem bíll hafði runnið ofan í gil norðan Rauðafells. Par sem var í bílnum slapp ómeitt en bíllinn skemmdist og þurfti fólkið að ganga í 1 1/2 tíma í leiðindaveðri til að komast í símasamband. Björgunarsveitin Ingunn sótti þá fólkið og bílinn.
Um klukkan hálf tólf barst svo annað útkall frá mönnum sem sátu fastir í tveimur bílum í krapa og drullu á Rótarsandi sem er á svipuðum slóðum og fyrra útkallið. Segir Bjarni að þar hafi verið á ferðinni illa búnir bílar sem ekkert erindi hafi átt upp á hálendið í þessari færð og veðri. Björgunarsveitirnar Ingunn og Biskup fóru af stað og stóð aðgerð þeirra langt fram eftir nóttu.