Guðmundur Jónsson söngvari látinn

Guðmundur Jónsson þakkaði fyrir sig með söng þegar hann tók …
Guðmundur Jónsson þakkaði fyrir sig með söng þegar hann tók við heiðursverðlaunum Íslensku tónlistarverðlaunanna í janúar 2006. mbl.is/ÞÖK

Guðmundur Jónsson, söngvari, lést í nótt 87 ára að aldri. Guðmundur var fæddur í Reykjavík 10. maí 1920, sonur hjónanna Jóns Þorvarðssonar, kaupmanns og Halldóru Guðmundsdóttur, húsmóður.

Guðmundur lauk prófi frá Verzlunarskóla Íslands of stundaði einnig verslunarnám á Englandi. Hann lærði söng hjá Pétri Á Jónssyni og stundaði einnig söngnám í Los Angeles, Stokkhólmi og Vínarborg.

Guðmundur starfaði sem söngkennari frá árinu 1949. Hann hóf störf á tónlistardeild Ríkisútvarpsins 1954 og var framkvæmdastjóri RÚV frá 1966 til 1985.

Guðmundur söng m.a. titilhlutverkið í fyrstu alvöru óperusýningu sem uppfærð var á Íslandi, Rigoletto. Hann söng einnig í fjölda ópera og söngleikja í Þjóðleikhúsinu og í Íslensku óperunni. Guðmundur fékk m.a. heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2006 og söng hann þá fyrir viðstadda.

Fyrri kona Guðmundar var Þóra Haraldsdóttir. Hún lést 1982. Síðari kona hans er Elín Sólveig Benediktsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert