Aðfaranótt síðastliðins laugardags var hraðhindrun, sem nýlega var sett niður austast á Oddabraut í Þorlákshöfn, rifin upp. Þarna er um að ræða einingar sem eru boltaðar niður í götuna. Lögreglan biður alla þá sem veitt geta upplýsingar um hver hafi verið þarna að verki að hringja í síma 480 1010.
Nokkrar kærur hafa borist í vikunni um þjófnað á gaskútum á Selfossi. Í öllum tilvikum er farið inn í garða þar sem gengið er að gasgrillum skorið á gasslöngu og kúturinn tekinn, samkvæmt dagbók lögreglunnar á Selfossi.
Í síðustu viku var tilkynnt um innbrot í nýbyggingu við Smyrlaheiði í Hveragerði og þaðan stolið Metabo hjólsög, Bosch stingsög, Einhell sverðsög, múrboltum og talsverðu magni af MBF festingum. Þeir sem veitt geta upplýsingar um þetta mál eru beðnir að hafa samband við lögreglu í síma 480 1010.
Lögreglan á Selfossi hafði afskipti af sex ökumönnum í síðustu viku sem voru grunaðir um að aka undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Tveir voru kærðir fyrir ölvunarakstur og 34 fyrir hraðakstur.