Iceland Express mótmælir fyrirvaralausri hækkun aðstöðugjalda í Flugstöð Leifs Eiríkssonar harðlega. Hækkunin, sem nemur 56%, úr 450 krónum á hvern farþega í 700 krónur, tók gildi 1. október en félaginu var ekki tilkynnt um hana fyrr en 9. október. Um Leifsstöð fara á bilinu 2-3 milljónir farþega á ári og því þýðir þetta aukakostnað fyrir flugfélögin og viðskiptavini þeirra upp á fleiri hundruð milljónir króna á ári, að því er segir í tilkynningu frá Iceland Express.
„Svona mikil hækkun á einu bretti er ólíðandi bæði fyrir okkur og almenning. Fæst fyrirtæki myndu komast upp með að hækka verðskrá sína um meira en 50% og því mótmælum við svona vinnubrögðum harðlega,“ segir Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express, í fréttatilkynningu.
Í tilkynningu kemur fram að Matthías undrast þau vinnubrögð að senda út afturvirka tilkynningu um mikla hækkun gjalda þar sem búið sé að selja flugmiða langt fram á næsta ár og ekki gert ráð fyrir þessum hækkunum í þeirri sölu. Matthías óskar skýringa á því hvers vegna félagið hafi ekki fengið fregnir af þessari hækkun fyrr.
„Það vaknar sá grunur að verið sé að nota aðstöðugjöld flugfélaganna til að greiða fyrir bætta veitingaaðstöðu fyrir farþega í Leifsstöð. Þrátt fyrir umbætur í Leifsstöð, sem við tökum þátt í að greiða fyrir, hefur aðstaða okkar í flugstöðinni lítið breyst og möguleikar á umbótum ekki verið miklir. Hér virðist okkur sem verið sé að velta enn stærri hluta af stækkun flugstöðvarinnar yfir á okkur fyrirvaralaust,“ segir Matthías.
„Þar fyrir utan hefðum við haldið að fjölgun farþega í flugstöðinni myndi frekar leiða til lægra aðstöðugjalds á hvern farþega heldur en aukinnar gjaldtöku. Fjölgun farþega ætti að þýða betri nýtingu á aðstöðu og þar með lægri kostnað á hvern farþega,“ segir Matthías, í fréttatilkynningu.