Reiddist vegna „ælugjalds"

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í 180 þúsund króna sekt fyrir að ráðast á leigubílstjóra í Reykjavík í september á síðasta ári en maðurinn var farþegi í bílnum. Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða leigubílstjóranum 100 þúsund krónur í bætur auk málskostnaðar, sem nam 234 þúsund krónum.

Leigubílstjórinn, sem er kona, var að aka fjórum farþegum þegar einn þeirra, einnig kona, þurfti að kasta upp. Bílstjórinn sagði þá að því fylgdi mikill þrifakostnaður ef farþegi kastaði upp innandyra. Sagði bílstjórinn að við þetta hefði annar farþegi brugðist ókvæða við og hótað henni lífláti, gripið höndum um háls hennar og þrengt að og einnig hrist hana með þeim afleiðingum að höfuð hennar skall í hliðarrúðu.

Sakborningurinn sagði að bílstjórinn hefði hótað að henda þeim út og jafn­framt talað um „ælu­gjald“ ef konan kastaði upp innandyra. Hann sagðist hafa rifið í öxl bílstjórans og sagt honum að hætta þessu en mótmælti því að hafa veitt bílstjóranum áverka.

Dómnum þótti hins vegar sannað, m.a. með vitnisburði annarra farþega í bílnum, að atburðarásin var eins og bílstjórinn lýsti og dæmdi farþegann sekan og bótaskyldan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert