„Samkeppniseftirlitið hefur ekki sýnt af sér seinagang eða á nokkurn hátt dregið lappirnar í athugun sinni á eignatengslum milli Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur, segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins. Hann segir athugun eftirlitsins hafa verið langt á veg komna þegar tilkynnt var um samruna Reykjavík Energy Invest og Geysir Green Energy.
Í úttekt á samruna REI og GGE í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins kemur fram að Samkeppniseftirlitið hafi verið með það til skoðunar hvort OR mætti vera stór eigandi í HS. Einnig segir að mikillar óþolinmæði gæti í garð eftirlitsins innan stjórnkerfisins og þyki ótrúlegt hversu langan tíma taki að vinna úrskurði.