Sjónvarpið braut ekki siðareglur í umfjöllun um mótmæli

Mótmælendur frá Saving Iceland við Straumsvík í sumar.
Mótmælendur frá Saving Iceland við Straumsvík í sumar. mbl.is/Júlíus

Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu, að Kastljós Sjónvarpsins hafi ekki brotið gegn siðareglum félagsins í umfjöllun um mótmæli Saving Iceland hér á landi í sumar.

Í umfjöllun Sjónvarpsins kom m.a. fram, að félagar í Saving Iceland fengju greiðslur ef þeir væru handteknir af lögreglu vegna mótmæla en því hafa samtökin vísað á bug.

Í kæru Saving Iceland segir einnig, að í Kastljósi Sjónvarpsins hafi tveir þekktir fjölmiðlamenn, sem voru að fjalla um fréttir vikunnar, komist upp með það, án minnsta aðhalds frá stjórnanda þáttarins, að ausa óhróðri yfir Saving Iceland og félaga í samtökunum án þess að færa nokkur rök fyrir máli sínu.

Í niðurstöðu sinni segist siðanefnd BÍ ekki fjalla um umræður í Kastljósi þar sem skoðanir einstaklinga komi fram. Eftir standi fréttir Í Sjónvarpinu. Vísar nefndin til þess, að fréttastofa Sjónvarps teldi sig hafa traustar heimildir fyrir þeirri fullyrðingu, að sumir mótmælendur fengju greitt fyrir að vera handtekin af lögreglu. Siðanefnd hafi ekki forsendur til að meta trúverðugleika heimilda Ríkissjónvarpsins enda hafi ekki verið lögð fram frekari gögn um efnið. Þar standi orð gegn orði.

Þá segist siðanefnd telja mikilvægt, að talsmanni Saving Iceland hafi verið gefinn kostur á að greina frá sjónarmiðum sínum strax og fullyrðingin var sett fram og leiðrétta það sem hann taldi rangfærslur fréttatstofunnar. Sjónarmið samtakanna hafi verið ítrekuð með viðtali síðar sama kvöld. Þá hafi kröfu um leiðréttingu einnig verið komið á framfæri í fréttatíma tveimur dögum síðar. Að mati siðanefndar hafi sjónarmið samtakanna því komið nægilega vel fram í umfjöllun fréttastofunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert