„Það er dálítið sérkennilegt að þeir skuli fara út með þessar tillögur. Við höfum litið svo á að um trúnaðarsamtöl sé að ræða og þetta mál þurfi að leysa við samningaborðið en ekki standa í áróðursstríði í fjölmiðlum," segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra um þá ákvörðun írskra stjórnvalda að greina fjölmiðlum frá málamiðlunartillögu um skiptingu yfirráða yfir Hatton-Rockall-svæðinu.
Fulltrúar Íslands, Írlands, Bretlands og Danmerkur funduðu fyrir helgi í Kaupmannahöfn og greindi AP-fréttastofan frá því að Dermot Ahern, utanríkisráðherra Írlands, hefði sagt að grundvöllur ætti að vera fyrir samningum þegar fundað verður í Dublin 16. og 17. janúar næstkomandi.
Ingibjörg segist ekki vilja tjá sig efnislega um tillögurnar að öðru leyti en því að þær séu óviðunandi fyrir Íslendinga. Þá vonist hún til þess að nýjar tillögur komi fram í Dublin.