Tuttugu brutu gegn lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar um helgina. Tíu gerðust sekir um þetta athæfi aðfaranótt laugardags og jafnmargir aðfaranótt sunnudags en þetta voru allt karlar. Langflestir eru á þrítugsaldri, eða tólf, og sex eru undir tvítugu. Tveir eru hinsvegar á fertugsaldri en þeir eru 36 og 38 ára.
Hinir brotlegu höfðu í frammi ýmiskonar ólæti og óspektir en þeim var boðið að ljúka málinu með sektargreiðslu. Margir tóku þann kostinn en meðal þess sem fólkið gerði af sér var að kasta af sér þvagi á almannafæri, fleygja rusli, slást og hindra störf lögreglu. Þess má geta að einn þeirra sem kastaði af sér þvagi á almannafæri gerði það við lögreglustöðina á Hverfisgötu og þá var annar handtekinn við sömu iðju í anddyri gististaðar í miðborginni, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.
Flestir hinna brotlegu voru handteknir í miðborginni en tveir voru handsamaðir í úthverfum, annar í Grafarvogi en hinn í Breiðholti. Þá var einn handtekinn í anddyri lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu. Sá kom þangað óumbeðinn og krafðist þess að vera færður í fangaklefa. Manninum var bent á að það væri með öllu óþarft enda hefði hann ekkert til sakar unnið að því er lögreglan vissi best. Viðkomandi lét það sem vind um eyru þjóta og hóf að láta mjög ófriðlega. Var því ekki um annað að ræða en færa hann í fangaklefa en ekki er vitað hvort maðurinn skyldi sáttari við lögregluna þegar hann fékk frelsið á nýjan leik, samkvæmt vef lögreglunnar.