Um mánaðarmótin tók í gildi sérstök verðskrá um heimaakstur á landsbyggðinni hjá Eimskip. Að sögn sölustjóra innanlandsflutninga hjá Eimskipum verður allur heimaakstur á landsbyggðinni nú innheimtur.
Verð fara eftir þriggja flokka kerfi. Vegi sendingin á bilinu 0-50 kg kostar hún 500 kr. án vsk. Vegi hún á bilinu 51-300 kg kostar hún 1.000 kr. án vsk. Loks kostar sendingin 1.500 kr. án vsk. vegi hún á bilinu yfir 301 kg.
Guðný Ósk Sigurgeirsdóttir, sölustjóri innanlandsflutninga, segir þetta vera einn af þeim þjónustuþáttum sem hafi ekki verið innheimtur á öllum stöðum. Aðspurð segir hún fáa hafa sett sig í samband við Eimskip og kvartað undan verðskránni. Hún segir þetta vera lágmarksgjöld sem hafi verið sett á til að vega á móti kostnaði. „Þetta er breytt verðskrá og einfaldari,“ segir hún.
Hún bendir á að áður hafi t.d. verið innheimtar um 200 kr. fyrir hverja sendingu. Nú er geti rukkunin t.d. hljóðað upp á 500 kr. fyrir fimm sendingar, en sem fyrr segir fer sendingin eftir þyngd hennar. „Í sumum tilfellum er þetta mun ódýrara en þetta var,“ segir Guðný og bætir því við að kerfið sé einfaldara og virki vel fyrir allt landið.