Björn Ingi: Kannski er byltingarforinginn fundinn

Björn Ingi Hrafnsson og Dagur B. Eggertsson.
Björn Ingi Hrafnsson og Dagur B. Eggertsson. mbl.is/Kristinn

Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokks, sagði á borgarstjórnarfundi í dag, að hann undraðist hvers vegna stefna Sjálfstæðisflokksins, sem samþykkt var á síðasta landsfundi flokksins um útrás orkufyrirtækja í samstarfi við einkaframtakið, hefði breyst þegar kom að Reykjavik Energy Invest.

Björn Ingi vísaði til þess að á landsfundi Sjálfstæðisflokks og í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnarinnar segi, að tímabært sé að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo að íslensk sérþekking og hugvit fái notið sín til fulls í útrás orkufyrirtækja.

Björn Ingi sagði, að fleiri en hann hefði klórað sér í hausnum yfir þeirri stefnubreytingu, sem komið hefði fram í málflutningi borgarfulltrúa sjálfstæðismanna, að útrás orkufyrirtækja væri ekki stefna Sjálfstæðisflokksins. Það hefði Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri einnig gert.

Björn Ingi sagði, að kannski hefði svarið við þessu fengist á fundi sem var haldinn á allt öðrum stað í bænum í dag. Vísaði Björn Ingi til ræðu, sem Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, hélt á fundi Viðskiptaráðs Íslands í dag, en þar sagði Davíð m.a. að hin hliðin á útrásinni væri, að Ísland sé að verða óþægilega skuldsett erlendis. Fyrirtæki, sem hefðu þá frumskyldu að lögum og samkvæmt efni máls, fyrst og fremst að veita almenningi þjónustu við hinu lægsta verði, væru í nafni útrásar skyndilega farin að taka þátt í áhættu erlendis, án þess að skynsamleg umræða um þau atriði hafi farið fram í landinu áður. Í öllum þessum efnum þurfi menn að fara að með gát.

„Hér kveður við nýjan tón. Þetta eru allt önnur sjónarmið, en Geir H. Haarde, forsætisráðherra, var með í þinginu í gær, og voru samþykkt á landsfundi Sjálfstæðisflokks og eru í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. „Þetta rímar hins vegar algerlega við málflutning sexmenninganna (borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks) á ákveðnum tímapunkti og maður veltir því fyrir sér hvort hér sé byltingarforinginn fundinn," sagði Björn Ingi.

Jórunn Frímannsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, sagði ekki rétt að sjálfstæðismenn væru á móti útrás orkufyrirtækja. Þeir væru hins vegar ekki samþykkir því, að Orkuveita Reykjavíkur tæki þátt í áhættusömum fjárfestingum á samkeppnismarkaði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert