Kaupþing sendi í dag Félagi fasteignasala tilkynningu þess efnis að sé óskað eftir yfirtöku áhvílandi íbúðalána bankans við eignaskipti verði það aðeins heimilað þannig að vextir breytist í sömu vexti og gilda á hverjum tíma á nýjum íbúðalánum. Þessi breyting mun taka gildi 1. desember næstkomandi.
Þá minnir bankinn á að hann samþykki ekki yfirtöku einkahlutafélaga á íbúðalánum. Íbúðalánin séu eingöngu ætluð til fjármögnunar á íbúðahúsnæði einstaklinga til eigin nota.
Kaupþing banki hóf að veita einstaklingum íbúðalán með 4,4% vöxtum sumarið 2004 en þeir urðu lægstir 4,15%. Friðrik St. Halldórsson, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Kaupþings banka, sagði að lánin hafi verið veitt með föstum vöxtum allan lánstímann. Í íbúðalánasamningum Kaupþings banka voru ekki ákvæði um endurskoðun vaxta á fimm ára fresti, líkt og sumar aðrar lánastofnanir höfðu í sínum íbúðalánasamningum.
„Í raun er verið að segja láninu upp með því að skipta um skuldara. Það er kominn annar aðili, sem á að borga af láninu, en sá sem fékk það í upphafi. Það er ekkert sjálfgefið að bankinn samþykki það,“ sagði Friðrik.
Lánþegar íbúðalána hjá Kaupþingi banka geta enn sem fyrr flutt veð íbúðalána sinna af einni íbúð á aðra. Þeir geta því tekið gamla lánið með lágu vöxtunum með sér kjósi þeir að skipta um íbúðarhúsnæði.