Flugmálastjórnin á Keflavíkurflugvelli hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna fréttar þar sem fram kemur aðfulltrúaráð Landssambands slökkviliðsmanna hafi lýst áhyggjum af neyðarviðbúnaði Keflavíkurflugvallar og hvetji ráðamenn til aðgerða.
Yfirlýsingin er svohljóðandi:
Keflavíkurflugvöllur er starfræktur með starfsleyfi Flugmálastjórnar Íslands sem setur flugöryggisstaðla, samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðlegum skuldbindingum, og hefur eftirlit með að þeim sé framfylgt. Flugvöllurinn er sem fyrr skilgreindur samkvæmt staðli Alþjóðaflugmálastofnunarinnar nr. 9 um björgunar- og slökkvilið sem tekur mið af umferð og gerð flugvéla sem um flugvöllinn fara. Þar er kveðið á um viðbrögð við slysi með ákveðnu lágmarksmagni slökkviefna og þremur slökkvibifreiðum. Ekki er kveðið á um fjölda slökkviliðsmanna. Í slökkviliðinu eru fjórar þrettán manna vaktir sem þýðir að ávallt eru að lágmarki tíu slökkviliðsmenn við störf á hverri vakt auk símamanns. Er þar ívið meira haft við en almennt gerist á evrópskum flugvöllum í sama stærðar- og umferðarflokki.
Rekstur flugvallarslökkviliðsins hefur breyst frá því að það tilheyrði varnarliðinu bæði hvað umsvif og skilgreiningu varðar. Brunavarnir í fyrrum 5.000 manna byggðarlagi varnarliðsins við Keflavíkurflugvöll hafa færst frá flugvallarslökkviliðinu til Brunavarna Suðurnesja og allmargar herflugvélar, þ.m.t. orrustuþotur sem þurftu mjög hátt þjónustustig, eru horfnar brott. Sú breyting var í raun hafin talsvert fyrir brottför varnarliðsins er verulegur samdráttur hafði orðið í umsvifum þess. Flugmálastjórnin Keflavíkurflugvelli tók við öllum starfsmönnum slökkviliðsins við brottför varnarliðsins samkvæmt lögum nr. 34/2006. Engum slökkviliðsmanni hefur verið sagt upp störfum.
Sömu sögu er að segja um flugvallarþjónustudeild sem annast m.a. hreinsun og hálkuvarnir á flugbrautum. Þar hafði varnarliðið fækkað niður í fjóra menn á vakt undir lokin en Flugmálastjórnin Keflavíkurflugvelli fjölgaði í fimm á hverri vakt þegar hún tók við rekstrinum. Flugöryggi á Keflavíkurflugvelli var þó aldrei stefnt í tvísýnu en sérstakt þjónustustig vegna reksturs orrustuþotna á flugvellinum á ekki lengur við um starfsemi hans.
Bent er á að flugvellir af samsvarandi stærð og með svipaða eða meiri flugvélaumferð í nágrannalöndunum hafa færri slökkviliðsmenn á vakt en gerist á Keflavíkurflugvelli, t.d. Bergenflugvöllur í Noregi, með 5 milljónir farþegar árlega, Sturup í Svíþjóð, með rúmlega 2 milljónir, og Billund í Danmörku. Auk þess annast slökkviliðsmenn þar ýmis önnur störf jafnhliða, svo sem snjómokstur, viðhald og jafnvel flugafgreiðslu. Árlegur farþegafjöldi á Keflavíkurflugvelli er um 2,2 milljónir farþega.