Samgönguráðherra er hlynntur því að lendingargjöld fyrir einkaþotur á Reykjavíkurflugvelli verði hækkuð og að með því móti dragi líkast til úr umferð einkaþotna um völlinn.
Kristján L. Möller samgönguráðherra sagði á Alþingi í gær að það hafi komið sér á óvart að tekjur af auknu viðskiptaflugi um Reykjavíkurflugvöll væru ekki mjög háar en að á vegum Flugstoða ohf., sem annast rekstur og uppbyggingu flugvalla á Íslandi, væri verið að vinna í breytingum á því. „Það má leiða líkur að því að með því að hækka lendingargjöld á Reykjavíkurflugvelli, sem eru ekki nógu há að mínu mati núna, og færa þau í það horf sem er hér á nágrannaflugvöllunum okkar hvað varðar viðskiptaflugið þá muni viðskiptaflugslendingum hér í Reykjavík fækka," sagði Kristján.