Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, mælti á Alþingi í dag fyrir frumvarpi, sem gerir ráð fyrir því, að heimildir tryggingafélaga til að afla heilsufarsupplýsinga í tengslum við töku persónutrygginga. Verður tryggingafélögum óheimilt að nýta sér upplýsingar úr erfðafræðilegum rannsóknum, sem gætu gefið til kynna hættu á að tryggingataki þrói með sér eða fái tiltekinn sjúkdóm.
Samkvæmt frumvarpinu getur tryggingafélag óskað eftir upplýsingum sem hafa þýðingu fyrir mat þess á áhættunni á því að veita einstaklingum tryggingar. Í þeim tilgangi sé félaginu heimilt að óska upplýsinga um sjúkdóma sem vátyggingartaki eða vátryggður, foreldri hans eða systkini eru haldin eða hafa verið haldin óháð því hvernig sjúkdómur hefur greinst.
Tryggingafélögum er hins vegar ekki heimilt, samkvæmt frumvarpinu, að óska eftir, afla með einhverjum öðrum hætti, taka við eða hagnýta sér upplýsingar sem fengnar eru úr niðurstöðu erfðarannsóknar á einstaklingi og geta gefið til kynna hættu á að hann þrói með sér eða fái tiltekinn sjúkdóm. Félögunum er einnig óheimilt að óska eftir rannsóknum sem teljast nauðsynlegar til þess að kostur sé á að fá slíkar upplýsingar.