Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH) skorar á alþingismenn að standa vörð um forvarnarstefnu í áfengismálum og greiða atkvæði gegn frumvarpi til laga um breytingu ýmissa lagaákvæða sem varða sölu áfengis og tóbaks. Þetta kemur fram í ályktun sem FÍH samþykkti í gær.
Í ályktuninni segir:
Í Heilbrigðisáætlun til ársins 2010, sem samþykkt var samhljóða á Alþingi þann 20. maí 2001, eru áfengis-, vímuefna- og tóbaksvarnir settar fram sem fyrsta markmið. Þar eru sett fram markmið um að minnka heildarneyslu áfengis hér á landi og ekki síður að vinna gegn neyslu ungs fólks. Að mati stjórnar FÍH vinnur umrætt frumvarp gegn þessum markmiðum Heilbrigðisáætlunarinnar.