Valgerður Sverrisdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segir á heimasíðu sinni, að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson sé nú laus undan sinni höfuðsök eftir að í ljós kom að hann kynnti samrunasamning REI og GGE fyrir formanni Sjálfstæðisflokksins. Sextett flokksins í borgarstjórn verði nú að leita að nýrri ástæðu fyrir flumbruganginum og tapaðri stöðu í borginni.
Valgerður vísar þarna til þess, að Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, segir á heimasíðu sinni að Vilhjálmur hafi upplýst á kynningarfundi í byrjun október, að samruninn hefði þegar verið kynntur forsætisráðherra og honum litist vel á ráðahaginn.
Valgerður segir, að komið hafi skýrt fram hjá formanni Sjálfstæðisflokksins við umræður á Alþingi, að hann sjái ekkert athugavert við að fyrirtæki í opinberri eigu og einkageirinn eigi með sér samstarf í útrásarverkefnum. Raunar sé lögð blessun yfir slíkt í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar.
„Í þeim málum eiga þeir minn stuðning vísan. Hinsvegar vekur það upp spurningar um klaufana sem klúðruðu borgarstjórnarmeirihlutanum og höfðu sér helst til skjóls að verið væri að verja prinsipp Sjálfstæðisflokksins. Forsætisráðherra hefur kveðið upp pólitískan Stóradóm í málinu og eftir stendur sextettinn og verður að leita að nýrri ástæðu fyrir flumbruganginum og tapaðri stöðu í borginni.
Lengi hefur Vilhjálmi verið legið á hálsi fyrir að hafa ekki haft nægt samráð um samruna REI og GGE og hefur þetta orðið til að veikja stöðu Vilhjálms í Sjálfstæðisflokknum. Skyndilega er staða hans gjörbreytt. Fram hefur komið að Vilhjálmur kynnti samninginn fyrir formanni flokksins og fékk samþykki hjá honum fyrir framkvæmdinni.
Hærra verður ekki leitað í pólitísku samráði en að tala við formanninn. Nú er Vilhjálmur laus undan sinni höfuðsök. Varla er þá annað eftir en að sexmenningarnir biðji Vilhjálm og sjálfstæðisfólk í borginni afsökunar fyrir að steypa undan þeim höfuðbólinu fyrir asnaskap," segir Valgerður.