Vestmannaeyjabær og Vinnslustöðin hf. hafa komist að samkomulagi um þátttöku í forvali vegna útboðs á rekstri ferju, sem sigla á milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar við Bakkafjöru. Segjast báðir aðilar telja að viðskiptaleg tækifæri kunni að felast í eignarhaldi og rekstri ferjunnar.
Í tilkynningu segir, að Vestmannaeyjabær og Vinnslustöðin séu sammála um að sú breyting, sem felist í tíðum og öruggum 30 mínútna ferðum milli Vestmannaeyja og hafnar í Landeyjum beri með sér mikil sóknarfæri fyrir Vestmannaeyjar, bæði íbúa og atvinnulíf. Mikilvægt sé fyrir heimamenn að kanna af fullri alvöru forsendur reksturs og eignarhalds á ferjunni með þátttöku í forvali fyrir útboð.
„Þekking og reynsla þessara samstarfsaðila á skiparekstri, þjónustu og umsýslu er mikil. Innrigerð og uppbygging Vestmannaeyjabæjar er sérhæfð til að veita almenningsþjónustu. Þá var Vestmannaeyjabær einn aðal eigandi og rekstraraðili hlutafélagsins Herjólfs hf. frá árinu 1976 til 2001 sem sinnti siglingum milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. Vinnslustöðin hf. er stærsta fyrirtækið í Vestmannaeyjum og eitt af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins," segir m.a. í tilkynningu.