„Ef einhver hefur í rauninni axlað pólitíska ábyrgð í þessu máli þá er það sá sem hér stendur, vegna þess að hann sleit meirihlutanum á grundvelli hugsunar sinnar í þessu máli," sagði Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í gærdag. Björn Ingi lét orðin falla í umræðum um samrunaferli Reykjavík Energy Invest og Geysir Green Energy, sem stóðu yfir í um þrjár klukkustundir, og uppskar frammíköll borgarfulltrúa sjálfstæðismanna að launum.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, kom raunar upp í pontu í kjölfarið og átaldi Björn Inga. „Hann segist axla ábyrgð með því að sprengja meirihlutann. Hann sprengdi meirihlutann vegna þess að við vorum ekki til í þessa vegferð með honum og borgarfulltrúinn, sem hefur hvorki meira né minna en 5% atkvæða að baki sér, kaus að setja öll önnur góðu verkefnin á "hold", setja þau í frestun."