Maturinn dýrari á morgun

Verð á matvælum á Íslandi mun hækka í framtíðinni. Um þetta voru fundarmenn sammála á morgunverðarfundi Bændasamtakanna, sem bar yfirskriftina Hvað kostar maturinn minn á morgun? Bretinn Martin Haworth, yfirmaður stefnumótunar bresku bændasamtakanna ræddi á fundinum um þróun landbúnaðarframleiðslu og sagði hann að offramleiðsla á landbúnaðarvörum hefði verið viðvarandi í vestrænum ríkjum fram undir þetta sem hefði leitt af sér verðlækkanir á heimsmarkaði.

„Nú er ástandið breytt og framleiðsla á landbúnaðarafurðum hefur dregist verulega saman í heiminum á sama tíma og eftirspurn hefur aukist. Verð á heimsmarkaði hefur því hækkað verulega. Ástæðurnar fyrir aukinni eftirspurn eru margþættar, meðal annars fólksfjölgun, kaupmáttaraukning í þróunarríkjum eins og Kína og Indlandi og aukin áhersla á framleiðslu lífefnaeldsneytis. Samdráttur í framleiðslu skýrist hins vegar af versnandi veðurfarsaðstæðum, vöntun á landi til matvælaframleiðslu og að vatnsforði jarðar fer óðum minnkandi. Óhjákvæmilega mun því verð halda áfram að hækka og það á við um Ísland ekki síður en önnur lönd."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert