Skipulagsstofnun höfðu í gær borist á fimmta hundrað athugasemdir vegna framkvæmda við Bitru- og Hverahlíðarvirkjun, sem ætlunin er að reisa við Hengilssvæðið. Fresturinn til að skila inn athugasemdum rennur út á miðnætti á föstudag og var annar kynningarfundur um framkvæmdirnar haldinn í húsakynnum Orkuveitunnar í gær.
Að sögn Þórodds Friðriks Þóroddssonar, sviðsstjóra umhverfissviðs hjá Skipulagsstofnun, hafa stofnuninni aldrei borist jafnmargar athugasemdir vegna auglýstra framkvæmda, þar með talið við Kárahnjúka. "Þetta er sennilega mesti fjöldinn sem okkur hefur nokkurn tímann borist," sagði hann.
Þóroddur sagði athugasemdirnar hafa borist með tölvupósti og að ekki væri tímabært að tjá sig um efni þeirra. Langflestar tengdust þó Bitruvirkjun.
VSÓ Ráðgjöf myndi vinna úr þeim fyrir Orkuveituna, sem væri framkvæmdaaðili, og niðurstöðurnar kynntar í endanlegri matsskýrslu sem óvíst væri hvenær Skipulagsstofnun fengi í hendur.