Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, sagði við umræður utan dagskrár á Alþingi í dag um stýrivexti Seðlabankans og stjórn efnahagsmála, að mikil uppgangur og framfari hafi átt sér stað í þjóðfélaginu en líka hafi hrikt í. Margskonar breytingar hafi orðið, sem hafi kannski eftir á að hyggja ekki verið allar rétt hugsaðar eða tímasettar. Vísaði Geir m.a. til þess sem fram kom við umræðuna um 70% hækkun á íbúðaverði.
„Skyldi það nú geta verið að ákvarðanir sem teknar voru í upphafi síðasta kjörtímabils varðandi íbúðalánamarkaðinn hafi eitthvað með það að gera? Ég hygg að svo sé og ég hygg að við sameiginlega og aðrir í þeirri ríkisstjórn hafi verið of fljótir á sér í þeim efnum hvað varðar að hækka lán Íbúðalánasjóðs og þurfa síðan að mæta samkeppninni sem kom frá bankakerfinu og var vissulega ekki til heilla í þessu máli,” sagði forsætisráðherra.
Seðlabankastjóri rassskellti ráðherra
Utandagskrárumræðan fór fram að beiðni Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarflokksins. Guðni gagnrýndi harðlega sinnuleysi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum en hann hóf ræðu sína með þessum orðum: „Einn var að smíða ausutetur. Annar hjá honum sat. Þriðji kom og bætti um betur og boraði á hana gat.” Það er því miður gat á efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar,” sagði Guðni.
Hann sakaði ráðherra um að tala út og suður. Þrýstingurinn í hagkerfinu væri vaxandi, kjarasamningar væru að losna og stýrivextir Seðlabankans virkuðu aðeins á annan helming þjóðarbúsins, fyrst og fremst á skuldug heimili og minni fyrirtæki og ofurvaxtastigið væri farið að reyna verulega á skuldsett ungt fólk.
„Höfuðverkur forsætisráðherra á eftir að aukast ef ríkisstjórnin spyrnir hvergi niður fæti. Seðlabankastjóri sá sig tilknúinn að stíga út úr musteri peninganna og rassskella ráðherra ríkisstjórnarinnar við sólarupprás í gærmorgun. Hann efaðist um að ráðherrar læsu eigin texta um stöðu þjóðarbúsins,” sagði Guðni.
Við lok umræðunnar kom Guðni aftur í ræðustól og sakaði forsætisráðherra um að skila auðu í umræðunni um efnahagsmál. Ríkisstjórnin virtist vera ráðþrota. „Sannleikurinn er sá, að þegar gamli hundurinn á Brúnastöðum beit í skottið á sér, þá fór hann hring eftir hring. Menn eru að bíta í skottið á sér og eru í rauninni ekkert að gera,” sagði Guðni.
Hagstjórn er meira en að ýta á takka
Geir sagði að ríkisstjórnin hefði sett á laggirnar sérstakan samráðsvettvang m.a. með aðilum vinnumarkaðarins og sveitarfélögunum um efnahags-, kjara- og félagsmál. Þegar hefði einn fundur verið haldinn og annar fundur yrði haldinn fljótlega.
Geir rifjaði upp að frá 2001 hafi Seðlabankinn haft sjálfstæði til að taka sínar vaxtaákvarðanir og lítið verið deilt um það fyrirkomulag. „Ég þekki fáa sem vilja hverfa til baka til þess tíma þegar ríkistjórnin réði vöxtunum í landinu og ákvað það fyrir hönd bankanna hvað þeir mættu taka í vexti,” sagði Geir.
„Seðlabankinn tekur sínar eigin ákvarðanir og byggir þær á því faglega mati sem sérfræðingar hans leggja bankastjórninni til. Eina kerfið sem gæti komið í veg fyrir þetta, væri aðild að Evrópusambandinu og upptaka Evrunnar en ég hef ekki skilið háttvirtan þingmann [Guðna Ágústsson] þannig að hann sé talsmaður þess og það er ég ekki heldur. Ef við erum að tala hér um fyrirkomulag peningamálanna þá er það þetta tvennt sem um er að tefla; Annað hvort kostur sem ekki er raunverulegur og nýtur ekki stuðnings, þ.e.a.s. að ganga í Evrópusambandið og taka upp Evruna. Hins vegar núverandi fyrirkomulag, ef til vill með einhverjum smávægilegum lagfæringum eða breytingum,” sagði Geir.
Forsætisráðherra sagði einnig að fyrirkomulagið sem komið var á 2001 þegar Seðlabankanum var veitt sjálfstæði til vaxtaákvarðana, hafi gefið góða raun í aðalatriðum. Menn geti deilt um einstakar ákvarðanir og hann sjálfur sagt það sína skoðun að nýjasta vaxtaákvörðunin Seðlabankans væri ekki heppileg með tilliti til kjarasamninganna sem framundan eru.
„Hagstjórn er meira en bara að ýta á takka. Það þarf að meta af nákvæmni og reyna að fylgjast með því sem er að gerast undirliggjandi í hagkerfinu og það er athyglisvert hvað hinar fjölmörgu efnahagsspár sem gerðar eru í landinu eru á köflum misvísandi,” sagði Geir H. Haarde.