Reglur um tollfríðindi ferðamanna eru nokkuð mismunandi eftir löndum. Eins og sagt var frá í 24 stundum í gær mega ferðamenn ekki koma með vörur fyrir meira en 46 þúsund krónur til Íslands án þess að greiða aðflutningsgjöld. Í Noregi er hámarkið sex þúsund norskar krónur eða um 65 þúsund íslenskar. Fréttavefur Svenska Dagbladet sagði frá því fyrir skömmu að til stæði að hækka hámarksupphæð vara sem ferðamenn koma með til Svíþjóðar frá löndum utan Evrópusambandsins úr 175 Bandaríkjadölum í 500.
Í fríblaðinu Metro fagna sænskir tollverðir hækkuninni og segjast raunar ekki leggja mikla áherslu á að grípa fólk, sem kemur úr verslunarferðum. „Við getum ekki staðið og þrasað við fólk í 45 mínútur um það hvaðan jakkaföt eða myndavél komi ef hættan er sú að á meðan missum við af einhverjum sem gengur í gegn með kíló af heróíni," segir Jonas Carlsson, sérfræðingur hjá sænska ríkistollstjóranum, í samtali við blaðið.