ASÍ sakar formann Öryrkjabandalagsins um útúrsnúninga

Vegna yfirlýsinga formanns Öryrkjabandalags Íslands Alþýðusamband Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem mótmælt er harðlega því sem sagt er vera rangfærslur og útúrsnúningur Sigursteins Mássonar, formanns Öryrkjabandalags Íslands, á þeim hugmyndum sem ASÍ og SA hafa verið með til umfjöllunar undanfarið um veikinda- og slysarétt.

Segir ASÍ í yfirlýsingunni, að þessar hugmyndir miði að því, að efla og treysta réttindi þeirra sem lenda í alvarlegum veikindum eða slysum ásamt því að stórauka starfsendurhæfingu til að auðvelda þeim þátttöku á vinnumarkaði.

Segir ASÍ, að fátt af fullyrðingum Sigursteins eigi við rök að styðjast og sé í engu samræmi við þær tillögur og hugmyndir sem ASÍ og SA hafi haft til umræðu.

„Formaður Öryrkjabandalagsins hefur jafnvel gengið svo langt að leggja Alþýðusambandinu til tilteknar skoðanir og óskað síðan eftir lögfræðiáliti á þessum tilbúnu skoðunum. Síðan er farið með slíkt lögfræðiálit í fjölmiðla til að slá því upp sem frétt. Alþýðusambandið harmar að Sigursteinn skuli í nafni Öryrkjabandalagsins leiðast út á þessa braut rangfærslna í jafn mikilvægu máli og um ræðir og vísar þessum málatilbúnaði alfarið á bug. Mikilvægt er að fram komi, að réttindi fólks vegna veikinda-, slysa- og örorku eru að langmestu leiti bundin í kjarasamningi en ekki í lögum um almannatryggingar. Umfjöllun og ákvörðun um breytingar á þessum réttindum eru því viðfangsefni kjarasamninga stéttarfélaganna. Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa náð mikilvægum áfanga í endurskoðun á réttindum launafólks vegna veikinda-, slysa- og örorku. Þessi áfangi hefur verið til kynningar meðal aðildarfélaga ASÍ. Ef þessi áfangi yrði að samkomulagi í nýjum kjarasamningi myndi það leiða til verulegrar hækkunar á bótum, bæði þeirra sem eru með fulla þátttöku á vinnumarkaði sem og umtalsverða hækkun grunnbóta allra. Það er því með öllu óskiljanlegt að formaður Öryrkjabandalags Íslands hafi valið að fara gegn þessum tillögum og dapurlegt að það sé gert með rangfærslum," segir í yfirlýsingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka