Blaðamaður DV braut siðareglur

Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu, að Trausti Hafsteinsson, blaðamaður DV, hafi brotið með alvarlegum hætti gegn siðareglum BÍ með umfjöllun í ágúst sl. um forstöðumann meðferðarheimilis fyrir unglinga.

Siðanefndin segir m.a. í niðurstöðu sinni, að forstöðumaðurinn verði að sætta sig við opinbera umfjöllun um störf sín, þótt gera verði eðlilega kröfu til fjölmiðla um sanngirni. Ekki þurfi að koma á óvart að skjólstæðingar, sem sæti innlögn og meðferð gegn vilja sínum, hafi sitthvað við það að athuga. Hins vegar telji siðanefnd orka tvímælis hvort kærandi hafi notið nægjanlegrar sanngirni í umfjöllun DV þar sem rifjaðar séu upp sex ára gamlar ásakanir um meint harðræði forstöðumannsins gagnvart skjólstæðingum sínum, þrátt fyrir að barnaverndaryfirvöld hafi hafnað þeim.

Öðru máli gegni um umfjöllun DV um persónuleg málefni fyrrverandi eiginkonu mannsins og barna þeirra. Vægðarlaus umfjöllun um deilumál tengd skilnaði mannsins og fyrrverandi eiginkonu hans, sem ekki verði felld undir annað en persónulegan harmleik, og ekki síst umfjöllun um alvarleg andleg veikindi konunnar og sjálfsvígstilraunir hennar, eigi ekkert erindi í fjölmiðla. Í því efni breyti engu þótt frásögnin sé höfð eftir þriðja aðila. Umfjöllunin jafngildi nafnbirtingu bæði konunnar og barna þeirra og sé til þess fallin að skaða saklaust fólk.

Rakin eru dæmi um fullyrðingar í umfjölluninni, sem virðist tilhæfulausar. Segir siðanefnd ljóst, að umfjöllun DV hinn 24. ágúst hafi verið óvönduð og víða pottur brotinn. Blaðið dragi nokkuð í land með athugasemdum sínum hinn 27. ágúst 2007 en þær dugi hvergi nærri til þess að rétta hlut kæranda.

„Það sem eftir stendur eru annars vegar einkamálefni kæranda og fjölskyldu hans sem borin eru á torg án þess að séð verði hvaða erindi þau eigi í fjölmiðla og hins vegar þungar ásakanir um líkamsárás og skattamál. Auðveldlega hefði mátt afla nákvæmari og réttari upplýsinga um þau mál," segir í niðurstöðu siðanefndar.

Heimasíða Blaðamannafélags Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka