Borgarstjóri: Netið samkomustaður 21. aldarinnar

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/Golli

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, segir að borgaryfirvöld vilji kanna þann möguleika hvort Reykjavík eigi að fylgja í fótspor nokkurra framsækinna borga sem hafa komið sér upp háhraðaneti. Hugmyndin sé sú að fólk geti þannig tengst netinu annaðhvort á lykilstöðum í borginni eða hvar sem er. Hann segir netið vera viðbót við torg borgarinnar og í raun samkomustað 21. aldarinnar.

Borgarráð samþykkti í dag tillögu borgarstjóra þess efnis að kannaðir verði möguleikar á þráðlausu háhraðaneti í Reykjavík. Dagur segir málið vera mjög spennandi, en að það sé ekki komið á neitt ákvörðunarstig.

Aðspurður um það hvort Reykjavíkurborg hafi hugsað sér að fara sömu leið og Seltjarnarnesbær, sem hyggst gera allt sveitarfélagið að einum stórum heitum reit á næsta ári, sagði Dagur að ekki sé búið að ákveða hvernig þetta verði útfært í Reykjavík. „Við ætlum að skoða bestu leiðir til þess að koma til móts við almenning og fyrirtæki.“

Spurður út í kostnað, þ.e. hvort Reykjavíkurborg muni greiða að fullu allan kostnað við uppsetningu þráðlauss háhraðanets í borginni, sagði Dagur að svo þurfi ekki að vera. Hægt sé að fara mismunandi leiðir í því og að það verði skoðað. T.d. hvernig kostnaðurinn muni skiptast og hvaða fyrirtæki borgin fengi til samstarfs.

Góður netaðgangur viðbót við torg borgarinnar

Það er ekki endilega hlutverk sveitarfélagsins að útvega þjónustuna sem slíka að sögn Dags. Hann segir að það geti t.d. útvegað bandvíddina en önnur fyrirtæki gætu séð um að útvega sjálfa þjónustuna. „Það eru margar mismunandi leiðir í því og auðvitað þarf að hugsa skýrt um hvert hlutverk sveitarfélagins er í þessu. Við erum auðvitað að sjá íbúunum fyrir ýmsum samkomustöðum, s.s. torgum. Góður netaðgangur er eiginlega viðbót við torgin okkar og borgina okkar. Sumir myndu segja að það væri samkomustaður í sjálfu sér. Samkomustaður 21. aldarinnar.“

Borgaryfirvöld eiga ekki að bíða eftir því að allar aðrar borgir taki af skarið í þessum málum segir Dagur. Reykjavík á fremur að skoða hverjir séu að standa sig best á þessu sviði og athuga hvort eitthvað sé hægt að læra af þeim. „Ef að menn ætla að bjóða upp á fyrsta flokks borg þá verðum við að vera á tánum,“ sagði Dagur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert