Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, sagði á fundi með starfsmönnum Orkuveitu Reykjavíkur í dag, að stefnan væri sú að Orkuveitan yrði áfram í útrás og alls ekki væri útilokað af hálfu aðaleiganda fyrirtækisins að af frekara samstarfi kunni að verða við Geysi Green Energy líkt og nýleg ákvörðun um áframhaldandi verkefni á Filipseyjum sýndi en þar vinna fyrirtækin saman sem og innan Enex.
Þetta kemur fram á heimasíðu Orkuveitu Reykjavíkur en borgarstjóri er þessa dagana að heimsækja ýmis fyrirtæki sem Reykjavíkurborg á aðild að.
Haft er eftir Degi, að við skoðun á samrunasamningi REI og Geysis Green Energy hefði ýmislegt komið fram varðandi verðmat og þjónustusamninginn sem leiddi til þess að réttast hefði þótt að láta samrunann ganga til baka. Nú sé stjórn Orkuveitunnar að finna útrásinni nýjan grundvöll.
Þá sagði Dagur, að ástæður áframhaldandi þátttöku í útrásinni væru umhverfismál og hvort sem menn kölluðu það þróunarsamvinnu eða annað þá væri innan Orkuveitunnar þekking í uppbyggingu innviða samfélaga sem auka lífsgæði fólks. Þá þekkingu ætti að nýta sem víðast.
Borgarstjóri var einnig spurður um fyrirhugaða stjórnsýsluúttekt á Orkuveitunni og hvers vegna það væri þá ekki utanaðkomandi aðili sem sæi um hana. Borgarstjóri upplýsti að það yrði utanaðkomandi aðili undir umsjón innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar sem myndi sjá um úttektina og tiltók hann að hún myndi m.a. beinast að verkaskiptingu stjórnenda, stjórnar og eigenda fyrirtækisins.