Leikarinn Jón Gnarr ýtti í dag úr vör landssöfnuninni „Þú gefur styrk,“ sem haldin er til styrktar átta samtökum barna og unglinga með geðraskanir.
Hliðstætt átak var gert í fyrra, en samtökin sem styrkt verða í ár eru: ADHD samtökin, Barnageð, Barnaheill, Hugarafl, Sjónarhóll, Spegillinn, Rauði krossinn og Umsjónarfélag einhverfra.
Það er Sparisjóðurinn sem stendur að verkefninu, en markmiðið er að hvetja viðskiptavini Sparisjóðsins og landsmenn alla til þess að láta gott af sér leiða og styrkja samtökin. Í fyrra söfnuðust rúmlega 20 milljónir króna og er stefnt að því að safna álíka hárri upphæð nú.
Á blaðamannafundi í dag kynnti Jón Gnarr verkefnið, en hann er félagi í ADHD-samtökunum. Sagði hann átakinu fyrst og fremst beint gegn fordómum sem börn og unglingar með geðraskanir eða hegðunarvandamál verði fyrir.
Þetta er annað árið sem að Sparisjóðurinn leggur andvirði hefðbundna jólagjafa til viðskiptavina í formi styrkja til geðheilbrigðismála. Sparisjóðurinn leggur fram 1.000 kr. fyrir hönd hvers viðskiptavinar sem vill láta gott af sér leiða og styrkja félag innan söfunarinnar. Um leið er hver og einn hvattur til að leggja fram viðbótarframlag.
Auðvelt er fyrir alla að taka þátt og gefa styrk frá Sparisjóðnum, til dæmis á netinu (www.spar.is) eða með heimsókn eða símtali í næsta Sparisjóð, hvar sem er á landinu.
Á heimasíðu Sparisjóðsins www.spar.is er einnig að finna ítarlegar upplýsingar um félögin og verkefnin sem fjármunirnir munu renna til.
Kynning Sparisjóðsins á verkefninu