Ekki sannað að „bumbuslagur" hafi leitt til slyss

Héraðsdómur Suðurlands hefur hafnað kröfu konu, sem datt á stétt utan við hótel Geysi og úlnliðsbrotnaði. Taldi konan, að ástæðan fyrir því að hún féll hafi verið sú, að tveir menn voru í svonefndum bumbuslag utan við hótelið en sá leikur fólst í því að reka bumbur sínar hvor í annan.

Konan krafði mennina um 16 milljónir króna í bætur en dómurinn hafnaði því og taldi ekki sannað, að tjón konunnar yrði rakið til athafna mannanna.

Slysið, sem málið reis út af, varð í apríl 2003 á árshátíð, sem þar var haldin. Í dómnum segir, að tveir hátíðargestir hafi ákveðið að bregða á leik og fara í svokallaðan bumbuslag sem hafi falist í því að þeir hafi rekið bumbur sínar hvor í annan. Hafi þeir með þessu nánast verið að kasta kveðju hvor á annan. Hafi þeir rekið bumbur sínar saman í tvö til þrjú skipti.

Mennirnir tveir sögðust ekki hafa tekið eftir konunni fyrr en þeir sáu hana liggjandi í stéttinni og ekki heldur orðið þess varir að annar hvor þeirra hafi rekist í konuna.

Konan sagðist hins vegar hafa staðið nálægt innganginum og verið þar í samræðum við annan árshátíðargest. Hún hafi allt í einu hafa fundið þungt högg dynja á sér og hún skollið í jörðina og borið fyrir sig vinstri handlegginn í fallinu með þeim afleiðingum að úlnliðurinn brotnaði.

Samkvæmt örorkumati hlaut konan 85% varanlega örorku og 12% varanlegan miska vegna áverkanna.

Í dómnum kemur fram, að mennirnir tveir voru lögreglumenn en árshátíðin var á vegum starfsmanna sýslumannsins á Selfossi. Mennirnir heimsóttu báðir konuna daginn eftir slysið, báðu hana afsökunar og gáfu henni blómvönd. Þá hafði annar frumkvæði að því að konan fékk styrk vegna slyssins úr félagssjóði lögreglumanna í Árnessýslu. Konan taldi þetta gefa tilefni til að draga þá ályktun að mennirnir hafi átt sök á því hvernig fór en því var héraðsdómur ósammála.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert