Stjórnvöld hyggjast ekki lækka álögur á eldsneyti þótt enn stefni í hækkun á verði bensíns og dísilolíu. Eldsneyti hækkaði í verði í gær og kostar bensínlítrinn í sjálfsafgreiðslu að jafnaði 130,7 krónur og dísilolía 131,9 krónur. Heimsmarkaðsverð olíu er nú með því hæsta sem sést hefur. Ný skýrsla Alþjóðaorkumálastofnunarinnar (IEA), sem út kom í gær, gefur til kynna að næstu árin muni eldsneytisverð almennt fara hækkandi, þótt áfram verði sveiflur á heimsmarkaðsverðinu. „Mér þykir leitt að segja það en ég held að við nálgumst mjög erfiða tíma," segir Fatih Birol, yfirhagfræðingur hjá IEA, í viðtali við fréttavef bandaríska tímaritsins Time í gær.
Magnús Ásgeirsson, innkaupastjóri hjá N1, hefur þó þá skoðun að verðið muni leiðréttast. „En það verður samt miklu hægar en ég hefði búist við fyrir mánuði eða nokkrum vikum. Það eru náttúrlega margir óvissuþættir sem valda þessu og því miður er enginn friður í kringum okkur í heiminum sem gæti hjálpað okkur."
Ríkisstjórnin samþykkti í síðustu viku tillögu Árna Mathiesen fjármálaráðherra um að hækka ekki olíugjald á dísilolíu um áramótin eins og fyrirhugað hafði verið og festa það í 41 krónu til frambúðar. Gjaldið var lækkað tímabundið um fjórar krónur árið 2005 til að ná því markmiði ríkisstjórnarinnar að dísilolía yrði áfram ódýrari en bensín í því skyni að hvetja til notkunar dísilbíla. Heimsmarkaðsverð hefur hins vegar þróast þannig að þrátt fyrir lægra gjald er dísilolían dýrari.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, segir eðlilegt að dregið sé úr skattheimtu þegar eldsneytisverð rýkur upp. „Þó að olíugjaldið og bensíngjaldið séu fastar krónutölur þá tekur ríkið inn töluverðan viðbótarhagnað í formi virðisaukaskatts. Til að draga úr þessum miklu hækkunum teldi ég eðlilegt að stjórnvöld kæmu til móts við almenning með því að draga úr álögum."