Háskóli Íslands eflir samstarf sitt við kínverska háskóla

Háskóli Íslands eflir samstarfið við kínverska háskóla.
Háskóli Íslands eflir samstarfið við kínverska háskóla. mbl.is/Þorkell

Í dag undirrituðu Háskóli Íslands og Fudan háskóli í Shanghai samning um rannsóknasamstarf og nemendaskipti. Samkvæmt fréttatilkynningu HÍ er vilji beggja skólanna að geta veitt sameiginlegar prófgráður bæði á meistara- og doktorsstigi, og stuðla þannig að öflugu rannsóknasamstarfi.

Politískur rektor Fudan háskóla, professor Qin Shaode, og Kristin Ingólfsdóttir skrifuðu undir samninginn, að viðstöddum sendiherra Kína á Íslandi Zhang Keyuan og gestum.

Í fréttatilkynningunni segir að við Fudan háskóla sé starfrækt Norræn miðstöð háskóla og gerðist Háskóli Íslands aðili að miðstöðinni á liðnu ári. Norræn miðstöð háskóla við Fudan var stofnuð árið 1995 og er hin eina sinnar tegundar á meginlandi Kína.Tuttugu og fjórir norrænir háskólar eru fullgildir aðilar að miðstöðinni, en einungis háskólar sem uppfylla ríkar akademískar kröfur geta gerst aðilar.

Fulltrúi Háskóla Íslands í stjórn Norrænu miðstöðvarinnar er Jón Atli Benediktsson prófessor, þróunarstjóri og aðstoðarmaður rektors. Jón Atli hefur einnig kynnt rannsóknir sínar og haldið námskeið og fyrirlestra við kínverska háskóla.

Úr fréttatilkynningu Háskóla Íslands:

Konfúsíusarstofnun við Háskóla Íslands
Í vor var frá því gengið að Konfúsíusarstofnun verði starfrækt við Háskóla Íslands. Ákvörðun um stofnun Konfúsíusarstofnunar á Íslandi var tekin sameiginlega af yfirvöldum Kína og Íslands. Stofnunin sem hefur að markmiði að efla fræðslustarfsemi um kínversku og kínverska menningu verður starfrækt í samstarfi Háskóla Íslands og Ningbo háskóla í Suður-Kína.

Kínverskur sendikennari við Háskóla Íslands
Fyrir milligöngu kínverska menntamálaráðuneytisins hefur Háskóli Íslands fengið sendikennarann Linzhe Wang fyrir árin 2007-2009. Vegna samstarfs við undirbúning Konfúsíusarstofnunar var sú ákvörðun tekin að senda kennara frá Ningbo háskóla en Wang gegnir þar stöðu lektors.

Samstarfssamningur á milli Háskóla Íslands og Jilin háskóla í Changchun, NA Kína
Gerður hefur verið nemendaskipta- og rannsóknasamningur við Jilin háskóla í Chagchun. Jilin háskóli er stærsti háskólinn í Kína með u.þ.b. 60 þús. nemendur. Kennsla á vegum Háskóla Íslands við Jilin háskóla Jón Atli Benediktsson, prófessor við HÍ, kenndi vikulangt námskeið um mynsturgreiningu („pattern recognition“) við hugbúnaðarverkfræðideild Jilin háskóla í september. Hann hélt jafnframt fyrirlestur um rannsóknir sínar við tölvunarfræði og ræddi mögulegt rannsóknasamstarf. Í haust heimsótti Jón Atli Benediktsson einnig tölvunar- og verkfræðideild Fudan háskóla, ræddi rannsóknasamstarf og hélt fyrirlestur um rannsóknir sínar.

Asíuver Íslands – ASÍS
er samstarfsstofnun Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri með höfuðstöðvar í Háskóla Íslands. ASÍS er ætlað að efla rannsóknir og fræðastörf á Íslandi sem lúta að Asíu og Asíufræðum. ASÍS gegndi lykilhlutverki í námskeiðshaldi í kínverskum fræðum við HA á síðasta ári og skipulagningu námslína í kínversku og Austur-Asíufræðum við Háskóla Íslands sem fóru af stað fyrr í haust. Forstöðumaður Asíuvers Íslands er Geir Sigurðsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert