Íslendingar munu beita sér fyrir leikreglum á Norðurslóðum

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. mbl.is/Sverrir

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að Íslendingar muni á grunni reynslu við mótun alþjóðlegra leikreglna um hafið og nýtingu þess, beita sér fyrir mótun nauðsynlegra leikreglna á Norðurslóðum. Sagði Ingibjörg Sólrún, að þar verði alþjóðalög að vega þyngra en hnefaréttur og hagsmunir mannkyns í heild að vega þyngra en þröngir hagsmunir einstakra ríkja.

Ingibjörg Sólrún sagði, að norðurslóðir væru nýtt kjarnamál í íslenskri utanríkisstefnu. Málið hefði verið sett í forgang í ráðuneytinu og heildstæð stefna varðandi norðurslóðir er nú í vinnslu.

„Á norðurslóðum eru miklir hagsmunir í húfi eins og við vitum öll og öryggi á Norður-Atlantshafinu er tvímælalaust eitt mest áríðandi öryggismál Íslands. En málið varðar ekki Íslendinga eina og umræður á vettvangi NATO og Norðurlandaráðs nú nýverið bera þess órækt vitni að málefni norðurslóða munu verða fyrirferðarmeiri á dagskrá alþjóðastofnana hér eftir en hingað til. Því ber að fagna.

Ein ástæða þessa er þó sú að allmörg ríki gera tilkall til áhrifa og aðgangs að auðlindum á Norðurpólnum. Við Íslendingar hljótum að leggja áherslu á góða samvinnu þeirra ríkja sem eiga hagsmuna að gæta á norðurslóðum en vara við kapphlaupi um auðlindir norðursins og einhliða aðgerðir," sagði Ingibjörg Sólrún.

Hún sagði, að fagna bæri þeim tíðindum, sem nú bærust frá Washington, að Bandaríkin séu nær því að gerast aðilar að hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna en nokkru sinni áður frá samþykkt hans árið 1982. Mikilvæg ástæða þess sé, að Bandaríkjamenn sjái, að aðild veiti þeim aðgang að skipulögðu samningaferli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert