Lesblindir verði settir í forgang

„Það hefur verið skortur á úrræðum fyrir nemendur með lesörðugleika. Málefni þeirra er eitt af því sem ég forgangsraðaði á þessu ári," segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra innt eftir úrræðum lesblindra nemenda.

„Ég skipaði hóp sem skilaði skýrslu í vor með tillögum að úrbótum. Þar kom tillaga um opnun fræðaseturs með áherslu á lesörðugleika og áhersla var lögð á opnun heimasíðu með upplýsingum fyrir kennara, foreldra og nemendur. Hún verður vonandi opnuð 16. nóvember. Þá hafa aðrar tillögur verið settar í farveg, m.a. varðandi samræmd próf og aðkomu heilsugæslunnar í tengslum við seinkaðan málþroska barna undir 6 ára aldri," segir Þorgerður, sem hyggst vinna markvisst að úrbótum.

„Sárindin geta verið mikil þegar ekki er komið til móts við krakka með lesörðugleika. Við munum horfa til þessa í breytingum á lögum um grunn- og framhaldsskóla sem lagðar verða fram."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert