Aðildarríkjum NATO gafst í morgun kostur á að bjóða fram flugsveitir til svonefndrar loftrýmisgæslu við Ísland næstu þrjú árin. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu voru viðbrögð bandalagsríkja mjög jákvæð og verða Frakkar m.a. með flugsveit á Íslandi í fimm til sex vikur fyrri hluta árs 2008.
Þá munu Bandaríkjamenn senda flugsveitir næsta sumar og aftur sumarið 2009 í tvær til þrjár vikur í senn. Danir og Spánverjar hafa gefið almenn fyrirheit um þátttöku árið 2009 og Norðmenn munu eiga frekara samráð við íslensk stjórnvöld um þátttöku. Enn fremur munu Pólverjar senda flugsveit til Íslands árið 2010, að sögn utanríkisráðuneytisins.
Ráðuneytið segir, að þessi framlög bandalagsríkja komi í kjölfar ákvörðunar fastaráðs Atlantshafsbandalagsins frá 26. júlí sl. um framkvæmd loftrýmisgæslu við Ísland. Um þau var tilkynnt á mannaflaráðstefnu NATO sem haldin var í herstjórnarmiðstöð bandalagsins í Mons í morgun.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sagði þegar hún flutti Alþingi skýrslu um utanríkismál í dag, að grannríki Íslands sýni mikinn áhuga á samstarfi á sviði varnarmála. Ingibjörg sagði, að vitaskuld vegi varnarsamningurinn við Bandaríkin frá 1951 þungt í vörnum Íslands en nýir rammasamningar við Noreg og Danmörku um samstarf á sviði öryggis- og varnarmála á friðartímum séu mikilvægir. Þá sé viðlíka samstarf við Bretland, Kanada, Þýskaland og Frakkland í deiglunni.