Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sagði þegar hún flutti Alþingi skýrslu um utanríkismál, að hún hefði gengið úr skugga um að fundargerð NATO-ráðsins frá 4. október 2001 hafi ekki veitt heimild til svonefnds fangaflugs, leynifangelsa eða pyntinga á meintum hryðjuverkamönnum, eins og látið hefði verið í veðri vaka.
Ingibjörg Sólrún sagðist hafa í gær skrifað utanríkismálanefnd bréf og tilkynnt, að utanríkisráðuneytið hefði hlutast til um að þingmönnum, sem sitja í nefndinni, fái öryggisvottun NATO, en trúnaður hvíli á störfum utanríkismálanefndar samkvæmt þingsköpum.
Sagði Ingibjörg Sólrún, að nefndin hefði nú fengið aðgang að fyrrnefndri fundargerð og gætu nefndarmenn því gengið úr skugga um hvað þar hefði verið samþykkt.