Neytendastofa segir að framsetning Heklu á auglýsingu um græna bíla sé til þess fallin að vera villandi og beinir þeim tilmælum til fyrirtækisins að taka tillit tillit til þess í auglýsingum sínum. Hekla hefur ákveðið að áfrýja þessari niðurstöðu til áfrýjunarnefndar neytendamála.
Um er að ræða auglýsingar þar sem segir í fyrirsögn: Þeir eru allir grænir! Með mun stærra letri, sé gefin einskonar skýring á hugtakinu grænn: Nýir bílar frá Volkswagen eru kolefnisjafnaðir.
Nytendasamtökin sendu Neytendastofu athugasemd vegna auglýsinganna og töldu þær gefa í skyn, að bílarnir væru grænni og umhverfisvænni en aðrir bílar. Neytendastofa tekur undir þetta og segir að sú skýring Heklu standist ekki, að það geri bílana græna að fyrirtækið greiði fyrir kolefnisjöfnun þeirrar mengunar, sem nýir Volkswagenbílar valdi í eitt ár.
Hekla segist í tilkynningu ekki vera sammála niðurstöðu Neytendastofu enda telji fyrirtækið að í auglýsingunum hafi verið gerð skýr grein fyrir því hvað átt var við með orðaleiknum „grænn” Volkswagen. Í því umhverfisátaki sem auglýsingarnar vísuðu til hafi verið lögð áhersla á að setja fram réttar staðreyndir um eðli og umfang kolefnisjöfnunarverkefnis Heklu.
Til að taka af allan vafa hafi Hekla ákveðið að óska eftir úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála í þessu efni.